Blog

Latest News and Updates

Mökkur af ló og ryki spýttist út úr loftræstikerfinu

Mikið af ló og ryki lagðist yfir sjúkrastofu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi um leið og hvellur heyrðist í rist á loftræstikerfi. Stóð strókurinn út úr ristinni sem er uppi undir lofti í stofunni.
Atvikið átti sér stað aðfaranótt þriðjudagsins, samkvæmt þeim upplýsingum sem DV hefur aflað sér. Um er að ræða sjúkrastofu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi þar sem liggur m.a. fólk með öndunarfærasjúkdóma. Allt í einu heyrðist hvellur og í sömu svipan þyrlaðist ló og ryk um alla stofuna svo að þykkur mökkur lagðist yfir allt, einkum þó svæðið nær dyrunum. Þótti sýnt að óhreinindin hefðu komið úr rist í loftræstikerfi byggingarinnar sem er í stofunni og er um það bil 1 metra frá lofti. Eftirlitsmenn voru kallaðir á staðinn í fyrramorgun og svo aftur í gær til að skoða vettvang. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvað hefur gerst en talið er að þessi “sprenging” tengist jafnvel þrýstingsbreytingum í umræddri sjúkrastofu. Eftir því sem DV kemst næst hefur þetta gerst a.m.k. einu sinni áður á sama stað. Þá voru fengnir tæknimenn til að leita orsakanna en svo virðist sem þeir hafi ekki ráðið bót á vandanum í þeirri atrennu. Samkvæmt upplýsingum sem DV hefur aflað sér örlaði á hruni úr ristinni um síðustu helgi og varð fólk þá vart við ló á borðum og í vatnsglösum. Hvellurinn kom svo skömmu síðar eins og að ofan greinir Alda Gunnarsdóttir deildarstjóri á deild 6A, þar sem atburðurinn átti sér stað, kvaðst ekki vilja tjá sig um málið meðan það væri í athugun en sagði að þetta hefði verið leiðinlegt atvik.

DV, fimmtudaginn 16 október 2003.

drakkarMökkur af ló og ryki spýttist út úr loftræstikerfinu
Share this post

Join the conversation