Með tíð og tíma safnast ryk og óhreinindi í loftræstikerfi með þeim afleiðingum að þau sinna ekki hlutverki sínu vegna óhreininda. Afkastagetan minnkar, hitunarkostnaður hækkar og starfsmenn geta orðið fyrir alls konar óþægindum, allt frá hnerra, hósta og svima til þyngsla fyrir brjósti eða í höfði.
Gott fyrir íbúðahúsnæði
Húseigendur þurfa einnig að huga að loftrásum úr íbúðum sínum. Ótrúlega víða eru íbúðir illa búnar hvað loftskipti varðar. Þetta er þó mál sem snertir heilsu allra sem dveljast í húsnæðinu og auk þess hefur gott loft áhrif á innviði íbúða og búnað þar. Þetta er einkum nauðsynlegt í gömlum húsum af því að það var upp og ofan hvort höfð var loftræsting út um veggi íbúða fyrir nokkrum árum en hefur orðið algengara hin síðari ár.
Ryk á vinnustað
Misjafnt er það hve störf okkar gefa mikið ryk frá sér út í loftið og með aukinni þekkingu okkar á ýmsum efnum verður hægt að gera ráðstafanir til þess að fyrirbyggja áhrif óhollustu á vinnustöðum.
Ég vík máli mínu sérstaklega að skólum af því að ég veit að þar er þvílíkur fjöldi fólks.Í vor las ég um það í norskum blöðum að kennari í list- og verkgreinum lagði niður störf til þess eins að fá úrbót á fyrirkomulagi loftræstingar í sambandi við smíðakennslu á sínum vinnustað. Þarna hagaði þannig til að ryk frá vélum smíðastofu gat komist í lofthreinsileiðslur skólans. Kennarinn var búinn að vinna alllengi að því að fá úrbætur á þessu en árangurinn lét á sér standa og var raunar aðeins svikin loforð síðast er ég frétti af málinu.
Það er rétt að benda íslensku skólafólki á að líta eftir hvort loftræsting er í lagi í þeirra skóla. Það gefur auga leið hve mikil þörf er á stöðugri athugun í skólahúsnæði þar sem margir einstaklingar safnast saman til starfa og dvalar.
Sjálfsagt höfum við flest veitt því athygli hve börnin verða oft kvefsækin á haustin þegar skólar hefja starf sitt, þá breiðast að minnsta kosti sumir sjúkdómar hratt út.
Eitt af því sem ekki má eiga sér stað er að loftleiðslur um húsnæði flytji beinlínis óhollt loft á milli herbergja. Mér þykir það mikill kostur á húsnæði ef hægt er að opna glugga út, helst á tveimur hliðum skólastofunnar.
Hreinsun loftrása
Það er mörgum ljóst að í sumum byggingum koma upp sjúkdómar sem virðast bókstaflega eiga rætur sínar í loftrásunum. Þannig hafa komið fréttir um ákveðnar tegundir sjúkdóma sem eru viðloðandi á sumum sjúkrahúsum. Nú er þó sú bót í máli að hægt er að fá loftrásir hreinsaðar þegar þörf gefur tilefni til. Til eru þónokkur fyrirtæki sem taka að sér að hreinsa loftrásir og eiga allgóð tæki til þeirra hluta. Fyrirtækin geta tekið myndir inni í loftrásunum með sérstökum tækjum sem geta farið um loftrörin.
Þeir sem vilja leiða hugann að loftrásum í húsum og lofthitun hljóta að gera sér grein fyrir því að í þeim hljóti að myndast bakteríugróður og safnast sennilega jafnvel flekkir á stöku stað í rörunum. Það gefur augaleið að sótthreinsun þarf að fara fram með ákveðnu millibili.
Heimild: Mbl. fasteignablað 11. júlí 2000.
Join the conversation
You must be logged in to post a comment.